Manor
iStock-504427552.jpg

Efnisveita

Betri stofan

Ætti ég að innheimta kröfur á mína viðskiptavini?

Margir lögmenn velta fyrir sér hvort þeir eigi sjálfir að innheimta kröfur sem þeir eiga á sína viðskiptavini eða m.ö.o. hvort sá sem ekki greiðir fyrir lögfræðiþjónustu eigi að fá innheimtubréf og að endingu stefnu frá sama lögmanni eða stofu og vann vinnuna. Þetta er góð spurning.

Tvær leiðir eru færar í þessum aðstæðum. Sú fyrri er að þú innheimtir kröfuna á þinn viðskiptavin eða felir innheimtufyrirtæki eða öðrum lögmanni utan stofunnar að sjá um málið. Við þetta eru kostir og gallar.

  • Viðskiptasambandið getur skaðast af innheimtuaðgerðum. Oft verða viðskiptavinir reiðir þegar málin eru komin á það stig og telja of hart fram gengið, of mikinn innheimtukostnað vera lagðan á málið o.s.frv. Ef þú ert sjálf/ur í slíkum aðgerðum getur neikvæðni innheimtunnar bitnað á viðskiptasambandinu. Hollara væri fyrir viðskiptasambandið að láta aðra sjá um innheimtuna.
     
  • Að standa með viðskiptavini sínum er alltaf mikilvægt. Ef innheimtan er færð í hendur annarra þá er einfaldara að standa áfram með viðskiptavini sínum þrátt fyrir vanskil. Krafan fer þá sinn hefðbundna feril en ef þú vilt þá geturðu stöðvað innheimtuna, fellt niður kostnað, fallið frá vöxtum o.fl. Einhver annar sér um að þrýsta á viðskiptavininn að greiða og þú hjálpar honum að klára málið þó svo að fullum rétti sé haldið með réttum innheimtuaðgerðum.
     
  • Málflutningur og/eða aðför getur orðið endirinn á ef ekkert gengur í innheimtumáli. Fæstir lögmenn vilja mæta viðskiptavinum sínum í dómsal. Í öllu falli er ólíklegt að frekari viðskipti hljótist af slíku sambandi. Af tvennu illu er betra að sérhæfður innheimtuaðili standi í slíkum aðgerðum.
     
  • Tekjurnar af innheimtunni, svo sem af innheimtubréfum, samkomulagi, þóknun lögmanns o.fl. fást inn á stofuna ef málið er unnið áfram hjá þér. En er það þess virði? Gæta þarf mjög að hagsmunum í þessu sambandi. Er viðskiptasambandið verðmætt? Ef svo, er til þess vinnandi að hefja innheimtuaðgerðir á viðskiptavini fyrir innheimtuþóknun af einni kröfu?

Okkar reynsla er sú að best sé að úthýsa innheimtu á viðskiptavini sína. Þá er ferlið einfalt. Lögmaður og viðskiptavinur vita frá byrjun hvernig farið sé með vanskil. Sérhæfðir aðilar taka við innheimtunni og bjóða þar allt það sem skuldari þarf á að halda, innheimtan verður skilvirkari og allt það neikvæða sem kann að fylgja innheimtu, símtölum, bréfaskrifum og öðru er ekki tengt við þig í huga neytandans heldur innheimtuaðilann.

Með þessari nálgun verður stofan betri þar sem ímynd hennar er jákvæðari í huga viðskiptavina og þú getur orðið betri lögmaður þar sem þú stóðst aðeins í því að verja hagsmuni viðskiptavinarins en ekki í innheimtuaðgerðum.