Manor
iStock-504427552.jpg

Efnisveita

Betri stofan

Tíu góð ráð við að skrifa texta undir pressu

 

Lögmenn skrifa mikið og oftar en ekki undir tímapressu. Hér höfum við tekið saman tíu ráð sem nýtast vel við slíkar aðstæður.

Skrifaðu á sama stað

Þekkt er meðal rithöfunda og textagerðarfólks að skrifa alltaf á sama stað. Fast umhverfi hjálpar mörgum við að komast af stað við ritun og segir huganum að nú eigi hann að vera í skrifstellingum. Þetta kann að hljóma furðulega en er engu að síður þekkt aðferð sem virkar vel fyrir marga.

Lágmarkaðu truflanir

Settu síma og önnur tæki á þögla stillingu og slökktu á tölvupóstinum í tölvunni. Truflanir geta valdið langri töf í skrifum þar sem það tekur tíma að komast aftur á skrið með skrifin eftir að kíkja stuttlega á nýjasta tölvupóstinn. Þá er oft sagt að sjónræn truflun sé sú versta, til dæmis fólk að koma og fara eða önnur hreyfing.

Rannsaka fyrst og skrifa svo

Þekkt er meðal blaðamanna að rannsaka fyrst viðfangsefnið í þaula, taka svo tíma til þess að slappa af og hefjast svo handa við skrifin. Gott er til dæmis að hreyfa sig á milli rannsókna og skrifa. Efnið sekkur betur inn í hugann og það verður auðveldara að skrifa með heildarmynd í huga þegar skrifin hefjast.

Ritvenjur

Margir rithöfundar hafa tamið sér ritvenjur. Það er eitthvað sem þeir gera til þess að minna sig á að þeir séu nú við skriftir. Með tímanum mótast venjur sem hjálpa til við að einbeita sér að textanum. Gott dæmi væri að hafa alltaf ákveðinn drykk við höndina, vera á tilteknum stað eða fara í tiltekna inniskó. Aðrir nýta einnig venjur áður en skrif hefjast til þess að koma sér í gírinn. Fara í göngutúr sömu leið alltaf áður en þeir byrja til þess að stilla sig inn á skrifin.

Skrifaðu í einni lotu

Til þess að texti verði heilsteyptur og skiljanlegur er best að skrifa allan textann í einni lotu, vissulega með matar og kaffihléum, en þó í samfellu. Með þeirri nálgun verður textinn vandaður og allt sem þú þarft til textans er í fersku minni. Ef þú geymir lokakaflann fram yfir helgi er líklegt að þú hafir gleymt öllum smáatriðum sem eru þér nú í fersku minni.

Leiðréttingarvenjur

Það skiptir miklu máli að lesa vel yfir alla texta og gera á þeim viðeigandi breytingar. Hér skiptir miklu að temja sér gott vinnulag. Sumir færa sig á nýjan stað þegar þeir lesa yfir og skapa þannig nýja venju. Sumir prenta allt efni á pappír og lesa það fyrst þar. Kosturinn við að skipta um umhverfi eða viðmót þegar lesið er yfir er að það er líklegt til þess að auka gagnrýni á textann. Það er erfitt að vera dómari í eigin texta en það er líklegra til að takast ef verkefnið er eins ótengt sjálfum skrifunum og hægt er.

Skilaðu á réttum tíma

Það er afar slæmt að fresta ritun texta aftur og aftur. Það á það til að skapa óþarfa pressu sem getur haft neikvæð áhrif á textann eða innihald hans. Þegar lögmenn leyfa sér að fresta er líklegt að það verði að vana að fresta og fresta fram á síðasta dag. Betra er að skipuleggja skrif vel og gefa þeim góðan tíma. Það er jú það sem viðskiptavinurinn er reiðubúinn að kaupa. Best er að venja sig á að skila á réttum tíma.

Skrifaðu fyrir lesandann

Texti snýst um að koma hugsun, röksemdum eða málavöxtum á blað svo að aðrir geti lesið og skilið. Miklu skiptir að gera þetta með skýrum og skorinortum hætti og forðast allar orðalengingar, skrúðmælgi eða óþarfa tækniorð. Best er að geta hluta sem setja textann í samhengi jafnvel þó að þeir séu augljósir í huga þess sem skrifar. Ekki skrifa eins fyrir aðra sérfæðinga í lögum og fyrir venjulega viðskiptavini sem ekki haga lögfræðilegan bakgrunn. Hannaðu textann svo hann henti lesandanum.

Forðastu skrúðmælgi

Flókin og fræðileg orð geta gert gagn ef engin leið önnur er fær til að koma einhverju í orð en í langsamlega flestum tilvikum er hægt að skrifa einfaldan og læsilegan texta án þeirra. Rannsóknir hafa verið gerðar á túlkun fólks á textum og margar þeirra benda til þess að lesendur telji langa og flókna texta til marks um það að höfundur hafi ekki fullan skilning á viðfangsefninu og sé því að skrifa sig fram hjá kjarna málsins. Því til viðbótar finnst lesendum óþægilegt að finna til skilningsleysis á texta og fá því slæma tilfinningu við lesturinn.

Einfalt, en ekki einfaldara

Það er góð vinnuregla við alla textagerð að hafa efni og framsetningu eins einfalda og mögulegt er – en þó ekki einfaldari en það. Vissulega er línan oft ansi þunn en heilt yfir er nálgunin góð.