Nýr Manor á hverjum degi
Það hljómar mögulega ótrúlega en við gefum út nýja útgáfu af Manor hér um bil á hverjum degi. Það taka ekki margir eftir því, þar sem gæðaeftirlit og prófanir eru stór hluti af útgáfuferlinu, en það er engu að síður það sem gerist og er það sem gerir Manor að mjög lifandi og skemmtilegu kerfi. Sumir líkja þessu við að sjá um hreyflana á flugvél sem er á flugi og á margan hátt er það góð samlíking.
Í gegnum árin höfum við skipulagt okkar þróun með þeim hætti að engar truflanir verði á notkun Manor þrátt fyrir stöðugar uppfærslur. Þetta er eitt af því sem okkar notendur eru vanir og kunna vel að meta. Við leggjum okkur fram um að standa undir þeim kröfum og munum halda því áfram.
Margir velta fyrir sér hvernig þessu sé háttað og hvað sé verið að þróa. Við tókum saman nokkra punkta.
Daglegar uppfærslur
Á hverjum degi er tilefni til þessa að gefa út nýjan Manor. Við erum þá ýmist að bæta við nýrri virkni, laga til virkni sem er þegar til staðar, uppfæra viðmót, þróa afmarkaða eiginleika áfram, vinna þróunarverkefni með notendum, gera breytingar sem bæta afköst, bregðast við villum eða sinna reglubundnum uppfærslum á undirliggjandi kerfum og kerfisþáttum. Hugbúnaður er mjög lifandi fyrirbæri sem gaman er að sinna dag frá degi.
Þessi nálgun um mjög tíðar uppfærslur er það sem nútímaleg hugbúnaðarþróun snýst á margan hátt um, og gengur út á stöðugar endurbætur frekar en fáar stórar uppfærslur. Á árum áður, og enn hjá sumum kerfum, komu stórar útgáfur með löngu millibili og höfðu í för með sér stórtækar breytingar og ófyrirséð áhrif. Í okkar þróun er reglan að þróa, prófa, læra og endurtaka svo ferlið þangað til besta niðurstaðan er komin á það sem verið er að þróa.
Stöðugt gæðaeftirlit grípur villur
Kerfisstjórnin hjá Manor vaktar allt sem upp á kemur við notkun í Manor. Gott dæmi er nýjung sem búið er að þróa og prófa og setja inn til notenda sem veldur óvæntu álagi á netþjóna eða kerfisþætti. Þá er brugðist við því hratt, uppfærsla útfærð og prófuð, og svo ný útgáfa gefin út.
Annað dæmi er er breyting á kerfum þriðja aðila sem veldur villu þegar Manor reynir að eiga samskipti við það kerfi. Þá þarf að gera breytingar í Manor svo að samskiptin við hitt kerfið séu með réttum hætti. Það viðbragð, með öllum prófunum og gæðaeftirliti, er oft talið í mínútum. Þá er komin ný útgáfa og notandinn getur reynt aftur og allt virkar vel.
Svona mætti áfram telja. Gæðin skipta miklu.
Styrkleiki í þróun
Við erum afar stolt af þessar nálgun okkar á þróun Manor. Við erum aldrei í vanda með gamlar útgáfur sem eru komnar í svonefnda tækniskuld þar sem búið er að fresta nauðsynlegum breytingum heldur eru okkar notendur með nýja útgáfu þar sem allt er í fremsta flokki.
Ný virkni eða nýir kerfisþættir eru settir í loftið snemma í einfaldri mynd svo hægt sé að þróa þá í takt við raunverulega notkun. Það lágmarkar óvæntar uppákomur eða ófyrirséða notkun sem getur reynst flókið að breyta ef búið er að ganga langt í þróun án þess að prófa virknina í raunumhverfi.
Því má segja að stykleikar í þróun snúist um endurtekningar þar sem við þróum, útfærum, prófum, gefum út og lærum af þeirri útgáfu. Svo hefst hringurinn á ný og endurbætur halda áfram.
Gæðin tryggð
Þessi mikli hraði á þróun er þó af mikilli ábyrgð. Við höfum byggt upp afar vandað þróunarumhverfi sem byggir á prófunum á öllum þáttum allra kerfishluta og kóðaþátta. Þannig keyra ótal próf hjá forriturum jafn óðum og þeir vinna, sjálfvirk próf keyra í tengslum við útgáfur af kerfinu og enn önnur próf keyra í aðdraganda nýrrar útgáfu. Með þessari nálgun höfum við tryggt snerpuna sem einkennir þróunarvinnuna.
Sést allt í viðmótinu
Okkur finnst gaman að benda notendum á að þeir geta séð hversu gamla útgáfu þeir séu að keyra á hverjum tíma – oftar en ekki er hún frá því í dag! 😊
PS.
Við báðum gervigreindina um mynd við þessa færslu af hugbúnaðarþróun þar sem útgáfur eru því sem næst daglegar. Ágætis tillaga þó að við hlaupum ekki oft um með svífandi ferðatölvur eða pappírsskjöl hér í þróunarteyminu 😄