Manor
iStock-504427552.jpg

Efnisveita

Betri stofan

Tíu góð ráð við innheimtusímtöl

Margir lögmenn nota Manor til innheimtustarfa og hringja reglulega í skuldara til þess að minna á kröfur, bjóða samkomulag o.þ.h.. Í þessum símtölum er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga.

 1. Vertu á undan vandanum með því að hringja snemma í innheimtuferlinu þegar lítill kostnaður hefur bæst við kröfuna. Það er hvetjandi að fá símtal um að ef greitt sé strax þá muni kostnaður ekki vaxa.
   
 2. Vertu með öll gögn á hreinu. Lestu málið í Manor áður en þú hringir og vertu viss á gjalddögum, innborgunum, fyrri loforðum og möguleikum sem viðkomandi hefur til þess að leysa málið.
   
 3. Taktu vel eftir og skráðu niður í Manor það sem fram kemur í símtalinu. Það hjálpar kröfuhafa að átta sig á stöðu málsins og hjálpar til síðar ef krafan fer fyrir dómstóla.
   
 4. Ekki gefa þér ástæður vanskila. Margar „réttmætar“ ástæður geta skýrt vanskil svo sem gleymska, misskilningur, ágreiningur, loforð kröfuhafans, o.s.frv. Reyndu frekar að skrá niður skýringarnar og bera þær undir kröfuhafa ef þarf.
   
 5. Bjóddu skýra valkosti svo að skuldarinn átti sig strax á því hvaða kosti hann hefur í stöðunni. Gott er að bjóðast til þess að dreifa greiðslum, bjóða hlé á innheimtuaðgerðum gegn innborgun, bjóða afslátt af vöxtum, lækka áfallinn kostnað gegn greiðslu og/eða önnur úrræði sem hönnuð eru í samráði við kröfuhafa. Flestir eru reiðubúnir að greiða inn á kröfu þó þeir geti e.t.v. ekki greitt hana í heild sinni.
   
 6. Dragðu saman niðurstöður símtalsins svo að enginn misskilningur sé til staðar. Segðu hvert samkomulagið sé, hvenær skuldari eigi að greiða hvaða upphæð og hvenær málið klárist ef allt standist.
   
 7. Haltu opnum leiðum fyrir skuldarann. Hlustaðu á hvað hann er að segja, hvernig málum er háttað og legðu til viðeigandi lausnir. Skuldarinn kann að meta skilninginn.
   
 8. Haltu ró þinni jafnvel þó skuldari missi stjórn á skapi sínu. Það geta mörg vandamál verið í lífi skuldarans sem skýra viðbrögðin. Best er að halda ró sinni, vera kurteis en halda fullri stjórn á símtalinu. Ef skuldari missir algjöra stjórn á sér er best að segjast hringja aftur síðar þegar henti betur, kveðja og leggja á. Aldrei rífast við skuldara.
   
 9. Ekki láta skuldara ráða för með því að segja þér hvað gerist næst eða hvernig krafan sé reiknuð út. Það er algengt á meðal reyndra skuldara að segja útreikninga ranga eða sér hafi verið lofað hinu og þessu af sama innheimtufélagi. Bjóddu skuldara að fá sundurliðu á hverju sem er, vertu klár á forsendum málsins og stattu á þeim - en vertu alltaf kurteis og til í að finna lausn.
   
 10. Skuldarar eru ekki allir eins. Þó að sumir skuldarar gangi mjög langt í dónaskap og fúkyrðum þá eru þeir ekki lýsandi fyrir skuldara almennt. Langsamlega flestir greiða kröfur sínar áður en kemur að löginnheimtu og taka innheimtusímtölum vel því þeir vita af vanskilum. Varist að þróa neikvætt viðmót gagnvart skuldara vegna þeirra fáu sem eru erfiðir.

Vonandi nýtast þessir punktar. Þegar við smíðuðum símtalaviðmótið í Manor Collect þá höfðum við þessa punkta í huga og settumst niður með reyndum aðilum í innheimtusímtölum og settum saman ofangreinda punkta.

Innheimtusímtöl eru gefandi þegar fólk finnur lausn á greiðsluvanda með þinni hjálp. Á móti eru þau erfið þegar skuldari missir stjórn á skapi sínu. Starfið er því ekki fyrir alla en þeir sem fylgja ofangreindum punktum og eru agaðir í símtölum ná miklum árangri.