Manor
iStock-504427552.jpg

Efnisveita

Betri stofan

Einföld leið fyrir lögmenn að nýjum viðskiptum

Allir sem þurfa lögfræðilega ráðgjöf byrja á að googla vandamálið, álitaefnið eða verkefnið. Þeir lesa það sem upp kemur og vinna málið svo áfram. En hver kom upp á Google? Varst þú í listanum?

Hér eru nokkrir punktar um hvernig þú grípur viðskiptin þegar eftir þeim er leitað.

Birtu vandað efni

Besta leiðin til þess að sýna hugsanlegum viðskiptavinum að þú hafir sérþekkingu á tilteknum málaflokki er að miðla upplýsingum um það á vefsíðu stofunnar. Til eru margar leiðir í þessum efnum. Þú gætir birt greinar um þau svið sem stofan starfar á þar sem stuttlega er fjallað um t.d. félagaform, samþykktir, stofnsamninga og önnur sjónarmið sem hafa þarf í huga. Sé efni til staðar gæti viðskiptavinur lent á vef stofunnar, séð að það sé að mörgu að huga, séð að þú veist sýnilega mikið um málið og í framhaldinu gripið tækifærið um að hafa samband við þig.

Þarna er komin tímalaus leið til þess að bjóða væntanlegum viðskiptavinum verðmæta innsýn í það sem þeir eru að velta fyrir sér og hvatningu um að koma í frekari viðskipti til þess að tryggja þá hagsmuni sem um ræðir.

Efnið oft þegar til

Margir lögmenn útskýra oft fyrir viðskiptavinum sínum sömu hlutina oftar en einu sinni. Sumir eiga til samantektir um t.d. félagaform sem þeir láta nýgræðinga í fyrirtækjarekstri fá þegar þeir koma í fyrsta sinn á stofuna. Það tekur ekki langan tíma að laga þá texta til og birta á vef stofunnar.

Gott er að taka eitt skref í einu. Birtu stuttan texta um það sem þú þekkir best. Byggðu svo ofan á það. Hægt og rólega verður til vandað safn efnis á netinu sem er alltaf að störfum við að afla þér nýrra viðskiptavina.

Endaðu á hvatningu

Endaðu fræðilegt efni eða greinar á vefsíðu stofunnar á því að hvetja lesandann til þess að hafa samband. Góð leið er að bjóða honum að ræða stuttlega um málið án endurgjalds. Oftar en ekki er það upphafið að arðbærum viðskiptum. Bjóða mætti lesanda að hafa samband við höfund greinarinnar með því að vísa á símanúmer eða netfang þess lögmanns sem skrifaði textann.

Birtu meðmæli

Þeir sem lesa efni á vef stofunnar hafa oft ekki reynslu af stofunni eða lögmönnum hennar. Þá er gott að lágmarka óvissuna með því að birta umsagnir viðskiptavina um þjónustu stofunnar í þeim málaflokki sem greinin fjallar um. Það hefur mjög jákvæð áhrif að sjá 2-3 ánægða viðskiptavini sem voru/eru í sömu sporum og lesandinn.