Manor
iStock-504427552.jpg

Efnisveita

Betri stofan

Að tilkynna verðbreytingar

Þegar lögfræðistofa vex úr grasi og lögmenn hennar öðlast meiri þekkingu, reynslu og getu er eðlilegt að verð á útseldri vinnu taki breytingum. Fyrir utan aukið virði sem reyndir lögmenn veita viðskiptavinum sínum þá fellur oft til kostnaður við reksturinn t.d. fjárfesting í upplýsingakerfum, launakostnaður við aðstoðarfólk, leiga á stærra húsnæði og almennar verðlagshækkanir. Hvað sem veldur þá er gott að hafa ákveðin atriði í huga þegar verð er hækkað.

Tilkynntu hækkun persónulega.

Aldrei senda út ópersónulegt bréf um verðbreytingar. Segðu viðskiptavini þínum frá verðbreytingum næst þegar þú hittir hann eða ræðir við hann í síma. Útskýrði hvað veldur hækkunum.

Gefðu skýringar.

Segðu hvað hafi breyst í rekstrinum hvað varðar uppsetningu, tækni, starfsmenn og þess háttar. Viðskiptavinir hafa gaman af því að heyra hvernig rekstur samstarfsaðila þeirra er að þróast. Það hjálpar einnig til við að skilja verðbreytingar.
 

Virði umfram kostnað.

Þegar þú gefur skýringar á verðbreytingum gættu þess að láta þær ekki allar snúast um breytingar á kostnaði. Ræddu líka um það mikla virði sem þú eða stofan eruð nú að skapa og taktu dæmi því til stuðnings. Ef viðskiptavinur er sammála þér um virði þjónustunnar þá er hann oftast einnig sammála um verðið.

Útskýrðu verðbólgu.

Ef þú ert að hækka verð vegna almennra verðlagsbreytinga (verðbólgu) þá er gott að útskýra það fyrir viðskiptavini með því að benda á staðreyndir eins og að verð stofunnar hafi verið óbreytt í 5 ár og á sama tíma hafi verðlag hækkað um 20%. Verðbreytingin sé því óumflýjanleg en hafi verið frestað eins og hægt var.

Segðu frá árangri.

Ef það á við má rifja upp mál sem þú náðir árangri í fyrir viðskiptavininn og nefna að viðskiptasambandið hafi verið gott og farsælt og að þú vonir að svo verði áfram.

Lykilatriði er að ekkert komi á óvart. Ekki hækka verð á milli reikninga og gefa færi á uppákomu þar sem viðskiptavinur telur sig hlunnfarinn með verðhækkun. 

Athugið þó að verðhækkun hefur áhrif á nær alla viðskiptavini. Þeir sem síst vilja greiða fyrir þjónustuna eru líklegir til þess að hætta viðskiptum. Það getur verið góð niðurstaða ef heildarniðurstaðan er jákvæð fyrir reksturinn. Þetta þarf þó að vega og meta í hvert sinn.